Fyrir nemendur

Hér geta nemendur í íslensku og almennum málvísindum nálgast upplýsingar um tveggja andlaga sagnir í íslensku og hugsanleg ritgerðarefni sem tengjast þeim og þessu rannsóknarverkefni.

BA-nemar sem hafa áhuga á að vinna í þessu verkefni í sumar eru vinsamlegast beðnir um að fylla út meðfylgjandi eyðublað og skila því á netfangið jj@hi.is í síðasta lagi 18. apríl 2021.

Umsóknareyðublað

Nemendur sem hafa áhuga á að skrifa BA-ritgerð innan þessa rannsóknarverkefnis og fá ein mánaðarlaun fyrir það eru vinsamlegast beðnir um að fylla út meðfylgjandi eyðublað og skila því á netfangið jj@hi.is í síðasta lagi 10. janúar 2021.

Umsóknareyðublað

Hér má nálgast mikilvægar heimildir um tveggja andlaga sagnir í íslensku. Þær eru flokkaðar eftir hugsanlegum viðfangsefnum fyrir nemendur.

Heimildir um tveggja andlaga sagnir í íslensku

Og hér kemur fróðleikur um rannsóknaraðferðir sem Gísli Rúnar Harðarson, nýdoktor, hefur tekið saman:

Rannsóknaraðferðir

 

Tveggja andlaga sagnir

Sögn sem tekur með sér tvö andlög, þ.e. óbeint andlag og beint andlag, nefnist tveggja andlaga sögn (e. ditransitive verb). Frumlag tveggja andlaga sagna er alltaf í nefnifalli en algengast er að óbeina andlagið sé í þágufalli og beina andlagið í þolfalli eins og í (1a). Sagnir af þessu tagi eru kallaðar gefa-sagnir enda er sögnin gefa í þessum flokki en hún er algengasta tveggja andlaga sögn í íslensku. Auk gefa-sagna eru a.m.k. fjögur önnur fallmynstur möguleg, sbr. (1b) – (1e):

(1a)      Kennarinn gaf [nemandanum] [einkunn] (þágufall + þolfall)

(1b)     Borgin úhlutaði [fyrirtækinu] [nýrri lóð] (þágufall + þágufall)

(1c)      Ég óska [ykkur öllum] [alls hins besta] (þágufall + eignarfall)

(1d)     Þeir leyndu [hana] [sannleikanum] (þolfall + þágufall)

(1e)      Fréttamenn spurði [formanninn] [margra spurninga] (þolfall + eignarfall)

Þótt óbeint andlag komi á undan beinu andlagi í hlutlausri orðaröð eins og í (2a) getur beina andlagið komið á undan óbeina andlaginu, a.m.k. með mörgum gefa-sögnum, sbr. dæmi (2b). Þetta kallast umröðun (e. Object Inversion) og er eitt aðalviðfangsefni þessa rannsóknarverkefnis.

(2a)     María afhenti sýslumanni vottorðið (óbeint andlag + beint andlag)

(2b)    María afhenti vottorðið sýslumanni (beint andlag + óbeint andlag)

Umröðun andlaga í íslensku skiptir miklu máli í alþjóðlegu samhengi, ekki síst vegna þess að umröðun í germynd er útilokuð í mörgum tungumálum, t.d. öllum norrænu málunum nema íslensku. Þetta er vísbending um að umröðun feli í sér færslu beins andlags fram fyrir óbeint andlag og hún brjóti málfræðilegar hömlur sem skipta þó ekki máli í íslensku. Hér má líka hafa í huga að íslenska hefur ríkulegt fallakerfi en af því leiðir að það er yfirleitt skýr munur á óbeinu og beinu andlagi óháð innbyrðis röð andlaganna.

Umröðun er ekki bundin við germynd. Hún er einnig möguleg í þolmynd og er reyndar mun algengari þar en í germynd. Umröðin í  þolmynd er helst möguleg með gefa-sögnum og er því takmörkuð þar á svipaðan hátt og í germynd:

(3a)      Sýslumanni var afhent vottorðið (óbeint andlag + beint andlag)

(3b)     Vottorðið var afhent sýslumanni (beint andlag + óbeint andlag)

Eins og sýnt er í (4) og (5) er umröðun ekki góð með sögnum sem ekki eru gefa-sagnir. þ.e. sögnum sem hafa annað fallmynstur en þágufall + þolfall. Dæmi um þetta er sögnin skila sem tekur tvöfalt þágufall:

(4a)     María skilaði sýslumanni vottorðinu (óbeint andlag + beint andlag)

(4b)    ??María skilaði vottorðinu sýslumanni (beint andlag + óbeint andlag)

(5a)     Sýslumanni var skilað vottorðinu (óbeint andlag + beint andlag)

(5b)    ??Vottorðinu var skilað sýslumanni (beint andlag + óbeint andlag)

Með þessari sögn er reyndar oft notaður forsetningarliður með forsetningunni til í stað óbeins andlags. Í slíkum dæmum kemur beina andlagið á undan forsetningarliðnum:

(6a)     María skilaði vottorðinu til sýslumanns

(6b)    Vottorðinu var skilað til sýslumanns

Eitt af meginmarkmiðum verkefnisins er einmitt að rannsaka að hve miklu leyti er hægt að nota nafnlið + forsetningarlið í stað tveggja andlaga með sögnum af ýmsum flokkum en þetta er nánast ókannað svið í íslensku.

Rannsóknarefni fyrir BA-ritgerðir

Hægt er að skrifa BA-ritgerðir um ýmis efni sem tengjast tveggja andlaga sögnum í íslensku. Hér að neðan eru rædd nokkur hugsanleg ritgerðarefni en þessi umfjöllun er þó alls ekki tæmandi. Í flestum tilvikum er gert ráð fyrir því að nemendur styðjist við leitir í Risamálheildinni og/eða tilraunagögn af ýmsu tagi, t.d. dómapróf á netinu. Til að kanna sögulega þróun tveggja andlaga sagna frá fornu máli til nútímamáls er þó nauðsynlegt að nota sögulega gagnagrunninn IcePaHC (Icelandic Parsed Historical Corpus). (Við munum setja inn nánari upplýsingar um mismunandi rannsóknaraðferðir sem þið getið notað og heimildir sem þið getið stuðst við fyrir áramót.)

1. Fallmynstur og frávik

Íslenska hefur varðveitt mjög vel þau fallmynstur með tveggja andlaga sögnum sem komu fyrir í fornu máli. Í nútímamáli má þó finna dæmi þar sem vikið er frá hefðbundinni fallstjórn í tveggja andlaga sögnum en þau fela í sér að beina andlagið fær þolfall í stað þágufalls eða eignarfalls eða að óbeina andlagið fær þágufall í stað þolfalls. Nokkur (örlítið breytt) dæmi um þetta úr Risamálheildinni eru sýnd hér að neðan:

(7a)      Borgin samþykkti að úhluta [íbúðafélaginu] [lóðir] (þágufall + þolfall)

(7b)     Forsætisráðherra leyndi [almenningi] [upplýsingum] (þágufall+ þágufall)

(7c)      Þeir hafa ekki spurt [mig] [eina spurningu um fótbolta] (þolfall + þolfall)

Samkvæmt hefðbundinni fallnotkun væri beina andlagið í (7a) í þágufalli, óbeina andlagið í (7b) í þolfalli og beina andlagið í (7c) í eignarfalli. Þetta er sýnt í (8):

(8a)      Borgin samþykkti að úhluta [íbúðafélaginu] [lóðum] (þágufall + þágufall)

(8b)     Forsætisráðherra leyndi [almenning] [upplýsingum] (þolfall+ þágufall)

(8c)      Þeir hafa ekki spurt [mig] [einnar spurningar um fótbolta] (þolfall + eignarfall)

Dæmin í (7) sýna þróun sem gengur í þá átt að alhæfa algengasta fallið á einu andlagi, þ.e. þágufall á óbeinu andlagi og þolfall á beinu andlagi. Þessi frávik koma ekki á óvart enda má bera þau saman við þá tilhneigingu að nota nefnifall í stað aukafalls á frumlögum sumra áhrifslausra sagna (sbr. Fjallið svipar til annarra fjalla þar sem þágufall er hefðbundið: Fjallinu svipar til annarra fjalla). Um frávik frá hefðbundinni fallstjórn í íslensku hefur ýmislegt verið skrifað á undanförnum árum, ekki síst hina margumræddu þágufallssýki (þágufallshneigð) en þó er fremur lítið vitað um slík frávik í tveggja andlaga sögnum.

2. Forsetningarliðir í stað óbeins andlags

Í mörgum tungumálum geta tveggja andlaga sagnir tekið nafnlið og forsetningarlið sem kemur í stað óbeina andlagsins (sbr. give a book to John eða give John a book). Í íslensku er þetta mögulegt með sögnum sem tákna hreyfingu, hvort sem það er í bókstaflegri eða yfirfærðri merkingu, og þá er notuð forsetningin til:

(9a)      Ég sendi Maríu öll gögnin

(9b)     Ég sendi öll gögnin til Maríu

(10a)    Borgin úthlutaði félaginu mörgum lóðum

(10b)   Borgin úthlutaði mörgum lóðum til félagsins

Hins vegar virðist þetta vera útilokað með öðrum tveggja andlaga sögnum í íslensku, t.d. þeim sem tákna eignaskipti eins og gefa eða selja:

(11a)    Ég gaf Sigga bókina

(11b)   *Ég gaf bókina til Sigga

(12a)    Sigga seldi mér bókina

(12b)   *Sigga seldi bókina til mín

Hér þarf þó að kanna nánar hvaða sagnir leyfa forsetningarlið í stað óbeins andlags og hvort slíkir forsetningarliðir lúti einhverjum hömlum. Þá má spyrja hvort einhver merkingar- eða blæbrigðamunur sé á því að nota tvö andlög eða beint andlag og forsetningarlið og hvers vegna stundum er hægt að nota forsetninguna á frekar en til (sbr. Hún sendi þennan póst á mig).

3. Umröðun

Eins og áður hefur komið fram er umröðun möguleg í íslensku, bæði í germynd og þolmynd. Það er þó ýmislegt sem greinir að umröðun í germynd og þolmynd. Leitir í Risamálheildinni sýna t.d. að beint andlag sem kemur á undan óbeinu í germynd er hljóðkerfislega léttara en óbeina andlagið í um 90% tilvika. Þetta kemur m.a. fram í því að beina andlagið getur auðveldlega verið áherslulaust fornafn, eins og í (13a), ef óbeina andlagið er það ekki. Hins vegar er óbeina andlagið mjög sjaldan fornafn og alls ekki nema það beri fulla áherslu, sbr. (13b):

(13a)   Hjónin seldu hana Sveini með nokkrum skilyrðum

(13b)   Hjónin seldu jörðina HONUM með nokkrum skilyrðum

Í þolmynd eru þessi áhrif mun veikari en í germynd. Þannig virðist vel mögulegt að segja eða skrifa (14b) þótt fornafnið sé áherslaust (og þar með borið fram onum):

(14a)    Hún var seld Sveini með nokkrum skilyrðum

(14b)   Jörðin var seld honum með nokkrum skilyrðum

Enn er þó margt á huldu um þessi þyngdaráhrif enda hafa þau aldrei verið könnuð með dómaprófi eða í annars konar málfræðitilraunum.

Önnur áhugaverð staðreynd er að Risamálheildin geymir ýmis dæmi þar sem beint andlag fer á undan óbeinu þótt sögnin sé ekki gefa-sögn. Þetta má sjá í eftirfarandi dæmum með valda (þágufall + þágufall), undanþiggja (þolfall + þágufall) og biðja (þolfall + eignarfall) þar sem beina andlagið er feitletrað og óbeina andlagið er innan hornklofa:

(15a)    Gengi krónunnar getur valdið vandræðum [þeim sem tóku lán í erlendri mynt]

(15b)   að undanþiggja skyldunni [þessar litlu stofnanir sem ég hef verið að tala um]

(15c)    biðja afsökunar [þá aðila sem hún hafi dregið inn í málið]

Í öllum þessum dæmum er óbeina andlagið langur nafnliður sem inniheldur aukasetningu. Hér hefur því færsla þungs nafnliðar væntanlega verkað og fært óbeina andlagið aftur fyrir beina andlagið. Þessi skýring gengur þó ekki alltaf, sbr. dæmin í (16) (úr Risamálheildinni) þar sem óbeina andlagið er aðeins tvö orð og telst því ekki þungt:

(16a)    þetta hefur þannig valdið alvarlegu tjóni [mörgum húsbyggjanda]

(16b)   til þess að undanþiggja launaskatti [tekjur sjómanna]

(16c)    talið ástæðu til að biðja afsökunar [aðrar þjóðir] á athöfnum okkar

Þessi dæmi virðast ganga gegn þeirri almennu reglu að umröðun andlaga verki aðeins á gefa-sagnir. En eins og með þyngdaráhrifin sem nefnd voru hér að ofan er frekari rannsókna þörf á þessu atriði.

4. Söguleg þróun

Þótt tveggja andlaga sagnir í fornu máli séu mjög sambærilegar við tveggja andlaga sagnir í nútímamáli er a.m.k. tvennt sem er ólíkt. Í fyrsta lagi er auðvelt að beita umröðun á beint andlag sem er óákveðið eins og í eftirfarandi dæmum:

(17a)    Flosi sendi orð Ingjaldi að hann kæmi til móts við hann (Njála)

(17b)   Vil eg nú gefa leyfi öllum mönnum að fara til Noregs (Egils saga)

(17c)    Þeir gáfu nafn landinu og kölluðu Helluland (Eiríks saga rauða)

Dæmi af þessu tagi eru hins vegar ekki eðlileg í nútímamáli þar sem umröðun er að mestu leyti bundin við andlög sem eru merkingarlega ákveðin.

Annar munur tengist njótendum (benefactives) en þeir tákna þann sem hagnast eða tapar á einhverju. Njótandi er oft óbeint andlag í þágufalli og kemur fyrir með vissum sögnum í fornmáli, t.d. kaupa, smíða og rista:

(18a)    Bersi keypti henni land fyrir norðan Hrútafjörð (Kormáks saga)

(18b)   Bjarni smíðaði Þormóði öxi breiða að Þormóðar fyrirsögn (Fóstbræðra saga)

(18c)    Þá þóttist hann rista henni manrúnar en hann kunni það eigi (Egils saga)

Í nútímamáli er njótandi hins vegar sjaldan óbeint andlag nema sem afturbeygt fornafn sem vísar til frumlagsins eins og í (19a). Annars er langalgengast að njótandinn sé tjáður með forsetningarlið eins og í (19c).

(19a)    Bessi keypti sér land fyrir norðan Hrútafjörð

(19b)   ??Bessi keypti henni land fyrir norðan Hrútafjörð

(19c)    Bessi keypti land fyrir hana/ handa henni fyrir norðan Hrútafjörð

Sá munur á fornmáli og nútímamáli sem hér hefur verið bent á þarfnast frekari athugunar, hvort sem hann tengist umröðun andlaga eða njótendum. Til að kanna forna málið má t.d. nota Risamálheildina og stilla leitina á fornmál.