Um verkefnið

Um verkefnið

 Tveggja andlaga sagnir í íslensku og færeysku (Ditransitives in Insular Scandinavian) er alþjóðlegt rannsóknarverkefni sem styrkt er af Rannsóknasjóði (Rannís) til þriggja ára, 2019–2021. Verkefnisstjórar eru Cherlon Ussery, dósent í málvísindum við Carleton College í Bandaríkjunum, og Jóhannes Gísli Jónsson, prófessor í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands. Aðrir þátttakendur eru Jim Wood, dósent við Yale-háskóla, Hjalmar Petersen, prófessor við Fróðskaparsetur Færeyja, Nicole Dehé, prófessor við háskólann í Konstanz, og Einar Freyr Sigurðsson, rannsóknarlektor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Markmið verkefnisins er að rannsaka tveggja andlaga sagnir í íslensku og færeysku með hliðsjón af tveggja andlaga sögnum í öðrum málum og almennum kenningum í setningafræði. Rannsóknin mun einkum beinast að þremur atriðum: (a) umröðun andlaga (þ.e. orðaröð þar sem beina andlagið fer á undan óbeina andlaginu), (b) táknun andlaganna (ólík föll og nafnliðir vs. forsetningarliðir) og (c) hugsanlegu sviði (scope) andlaganna tveggja. Í þessu skyni verða ýmsar kannanir lagðar fyrir íslenska og færeyska málhafa auk þess sem gögnum verður safnað úr Risamálheildinni og færeyska textasafninu á teldni.fo. Í könnunum verða þátttakendur m.a. beðnir um að dæma ýmiss konar setningar með tveggja andlaga sögnum en í málheildunum verður dæmum safnað um tiltekin málfræðiatriði sem tengjast tveggja andlaga sögnum.

Íslenska og færeyska henta vel til samanburðar þar sem bæði þessi mál eru með fallakerfi þar sem óbein andlög eru yfirleitt í þágufalli og bein andlög í þolfalli. Á hinn bóginn hefur færeyska glatað mörgum af þeim fallmynstrum sem eru enn til í íslensku, t.d. þar sem beint andlag er í eignarfalli (sbr. biðja sér lífsbiðja sær lív eða spyrja mig einnar spurningar – spyrja meg ein spurning). Auk þess er færeyska að þróast í þá átt að útvíkka notkun forsetningaliða í stað óbeinna andlaga og leyfa þá með fleiri sögnum en í íslensku (sbr. geva bókina til Hjalmar vs. *gefa bókina til Hjálmars).

Fallmörkun er mikilvægt fyrirbæri í setningafræði almennt þar sem hún gefur vísbendingar um setningafræðilega formgerð og íslenska gegnir þar mikilvægu hlutverki vegna ríkulegs fallakerfis. Rannsóknir á íslensku hafa líka sýnt fram á tilvist aukafallsfrumlaga sem áður voru talin útilokuð (sbr. Mérer kalt) og sú uppgötvun breytti hugmyndum málfræðinga um það hvernig sambandi formgerðar og fallmörkunar er háttað. Tveggja andlaga sagnir skipta líka miklu máli í þessu sambandi því hugsanlegt er að sú formgerð sem tengist slíkum sögnum sé ólík eftir því hvert fallmynstur andlaganna er. Þetta hefur þó aldrei verið kannað á fullnægjandi hátt. Auk þess eru sterk tengsl milli merkingarhlutverka nafnliða og fallmörkunar í íslensku og þau koma skýrt fram í tveggja andlaga sögnum.